Sumarsýningarnar um helgina - 21.-22. júní!

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 2 min

Nú um helgina, 21.-22. júní, verður fyrri útisýningar helgi sumarsins haldin á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Skráning á sýninguna fór í hámark skráningu báða dagana. Dæmt verður í 12 sýningahringjum samtímis og hefjast allir dómhringir  kl. 9:00 báða daga og áætlað að úrslit hefjist kl. 15:15 báða daga. Gera má ráð fyrir að þau standi til u.þ.b. kl. 17:30/18.

FRÍTT er inn á sýninguna í boði EUKANUBA og er því engin miðasala á staðnum, rósettusalan verður á sínum stað að venju meðan sýningunni stendur. Ýmsir sölu- og kynningabásar verða einnig á svæðinu ásamt matarvögnum.

Dómarar helgarinnar eru: Alexandra Drott Staedler (Svíþjóð), Anne Livø Buvik (Noregur), Auður Sif Sigurgeirsdóttir (Ísland), Cathrina Dunne (Írland), Davor Javor (Króatía), Fredrik Nilsson (Svíþjóð), Helen Tonkson (Eistland), Jan Törnblom (Svíþjóð), Karin Sjöholm Östlund (Svíþjóð), Matti Tuominen (Finnland), Natalja Skalin (Svíþjóð), Theodóra Róbertsdóttir (Ísland) og Vija Klucniece (Lettland).

Keppni ungra sýnenda er bæði laugardag og sunnudag í úrslita hringnum. Á laugardag dæmir Javier Gonzalez Mendikote frá Króatíu keppnina, hún hefst kl. 12:30 á yngri flokki (9) og síðan eldri flokki (12) beint eftir. Á sunnudag dæmir Sóley Halla Möller keppnina, hún hefst kl. 12:30 á yngri flokki (10) og síðan eldri flokki (12).

Hér er hægt að sjá dagskrá sýningar, PM (dagskrá hringja) og dagskrá úrslita.

Úrslit, umsagnir og sýningaskrá má finna á hundavefur.is

 

VARÐANDI SÝNINGATJÖLD Á SVÆÐINU

Uppsetning sýningar fer fram á föstudeginum 9. ágúst. Ekki verður heimilt að tjalda á túninu fyrr en uppsetningu er lokið og leyfi hefur verið veitt, það er áætlað kl. 15. Ekki er heimilt að keyra inn á túnið á föstudeginum, né um helgina. Búið verður að spreyja merkingar á túnið þar sem tjöld mega vera, en það er ca. 4 metra frá hringjum. Reglulega verður merkt X en þar myndast gangvegar og ekki heimilt að tjalda á X svæði né fyrir aftan það, það er gert til að tryggja aðgengi að hringjum. Vinsamlegast athugið að tjöld við sýningarhringi mega ekki vera stærri en 3m x 3m. Stærri tjöldum má tjalda fjarri sýningarhringjum. Vinsamlegast ekki tjalda of nálægt göngustígunum, það þurfa stórir bílar að geta keyrt stíganna alla helgina, tjöld sem eru of nálægt gæti þurft að fjarlægja ef þau eru fyrir. ATH! Ef tjöld eru á stöðum sem þau mega ekki vera á munu skipuleggjendur sýningarinnar fjarlægja tjöldin, svo vinsamlegast virðið teikninguna hér að neðan og merkingar á túninu.

Hægt að smella hér til að sjá myndina hér að ofan í betri upplausn.

Vinsamlegast skoðið myndina hér fyrir ofan hvar má tjalda. Skipulag svæðisins og hringja má sjá hér að ofan. Bendum á að myndin er ekki í réttum hlutföllum, en hún sýnir grófa yfirsýn á svæðinu. Ef ástand túnsins er þannig að þörf sé að færa til einstaka hringi verður það gert.

Við minnum á að umgengni um svæðið þarf að vera til algjörrar fyrirmyndar og hvetjum við félagsmenn til að nýta sér ruslafötur á svæðinu.

Vinsamlega athugið að lausaganga hunda á svæðinu er stranglega bönnuð og skulu allir hundar vera í taumi og á eru þeir alfarið á ábyrgð eigenda sinna.

Við minnum félagsmenn á þau ákvæði í reglugerð nr. 80/2016 er varðar velferð gæludýra þegar valdir eru sýningartaumar og ólar. Félagið hvetur félagsmenn til að nýta sér búnað sem er í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

 

BÍLASTÆÐAMÁL

Vinsamlegast ekki leggja bílum ólöglega, þeir verða dregnir í burtu og/eða sektaðir. EKKI er heimilt að leggja fyrir framan skátaheimilið (svæði F) bæði laugardag og sunnudag, einnig er ekki heimilt að leggja fyrir framan kirkjuna (svæði C) á sunnudag!

Sýningastjórar eru Ágústa Pétursdóttir og Anna Guðjónsdóttir.

Við hlökkum til að sjá ykkur og gangi ykkur vel um helgina!