Guðrúnarverðlaunin
Guðrúnarverðlaunin er viðurkenning sem veitt er árangursríkum og farsælum hundaræktendum (einstaklingum) innan HRFÍ.
Viðurkenningin er nefnd eftir Guðrúnu Ragnars Guðjohnsen, heiðursfélaga og fyrrum formanni HRFÍ. Guðrún vann mikið og óeigingjarnt starf sem formaður félagsins um árabil og lagði þar grunn að öflugu starfi félagsins í dag. Hún barðist ötullega fyrir réttindum hundeigenda, fyrir bættri meðferð og þjálfun hunda, ábyrgara ræktunarstarfi og uppeldi hvolpa. Guðrún ræktaði íslenska fjárhundinn undir ræktunarnafninu „Íslands-Garða“ og var varðveisla kynsins og heilbrigði þess hennar hjartans mál.
Til að koma til greina fyrir Guðrúnarverðlaunin þarf viðtakandi að hafa verið virkur ræktandi í a.m.k. 20 ár að tilteknu hundakyni. Viðurkenninguna er einnig hægt að veita einstaklingi sem hefur á annan hátt markað djúp spor í hundarækt.
Ræktendur að vinnu- og veiðihundakynjum þurfa að hafa náð árángri bæði í vinnu- og/eða veiðiprófum og á sýningum.
Ræktunarstarfsemi viðkomandi má ekki stangast á við grunnreglur, tilgang eða stefnu HRFÍ. Ræktendur skulu hafa sýnt ábyrgð gagnvart heilsufarskröfum og öðrum áhættum í hundakyninu og ef kynið er í BSI-leiðbeiningum, þarf að sýna fram á frammúrskarandi heilsufar í ræktuninni. Þá þarf almennt hundahald viðkomandi að vera til fyrirmyndar.
Ekki er hægt að tilnefna látinn einstakling sem viðtakanda Guðrúnarverðlaunanna.
Stjórn HRFÍ skipar þriggja manna nefnd til 5 ára í senn sem skal fjalla um tilnefningar og ákveða hver hlýtur Guðrúnarverðlaunin. Nefndarmenn skulu þekkja starfsemi félagsins sérlega vel og mikilvægi
ræktunarstarfs fyrir tilgang þess og markmið. Nefndin hefur aðgang að viðeigandi skráningum og opinberum niðurstöðum hjá HRFÍ er tengjast ræktun viðkomandi. Hún rökstyður ekki hvers vegna ræktandi fær eða fær ekki Guðrúnarverðlaunin.
Tillögur um veitingu Guðrúnarverðlaunanna geta komið frá stjórn félagsins eða deildum þess (ekki einstaklingum). Greinargerð um ræktunarstarf viðkomandi skal fylgja tillögunni. Mikilvægt er að fjalla þar
t.d. um hvaða áhrif viðkomandi hefur haft á ræktun hundakynsins, hvernig ræktun hans hefur verið mikilvæg fyrir innlenda og/eða alþjóðlega þróun tegundarinnar, hve vel ræktandinn hefur fylgt leiðbeiningum og kröfum um heilbrigði ræktunarhunda, hvernig unnið hefur verið með arfbundinn fjölbreytileika,
hversu vel ræktunin fer eftir BSI (ef við á), hvernig ræktandi vinnur með tegundarbundna eiginleika hundakynsins (ef við á) og hvernig persónulegir eiginleikar ræktandans sjálfs hafa stuðlað að árangursríku starfi hans. Nefndin getur sjálf haft frumkvæði að tilnefningu.
Ræktanda sem hlýtur Guðrúnarverðlaunin skal tilkynnt um heiðrunina bréflega fyrir næsta aðalfund félagsins, þar sem hún fer alla jafnan fram, af stjórn félagsins. Formaður HRFÍ eða staðgengill hans afhendir viðurkenninguna fyrir hönd félagsins. Heiðruninni fylgir merktur minningagripur.
Nefnd Guðrúnarverðlaunanna
Nefnd Guðrúnarverðlaunanna frá mars 2025 til mars 2030 skipa:
Guðríður Vestars
Þorsteinn Thorsteinson
Þórhildur Bjartmarz