Reykjavík Winner sýningin um helgina!

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 2 min

Nú um helgina, 8.-9. júní, verður fyrri útisýningar helgi sumarsins haldin á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Skráning á sýninguna gekk mjög vel og eru tæplega 1.200 hundar skráðir yfir helgina. Allir dómhringir byrja kl. 9:00 báða daga og áætlað að úrslit hefjist kl. 14:30 báða daga. Gera má ráð fyrir að þau standi til u.þ.b. kl. 17/18.

FRÍTT er inn á sýninguna í boði EUKANUBA og er því engin miðasala á staðnum, rósettusalan verður á sínum stað meðan sýningunni stendur eins og venjulega. Vekjum athygli að ekki verður tekið við seðlum í rósettusölunni, einungis kortum.

Dómarar helgarinnar verða: Beata Petkevica (Lettland), Erna Sigríður Ómarsdóttir (Ísland), Eva Nielsen (Svíþjóð), Gunnar Nymann (Danmörk), Jean Lawless (Írland), Kaisa Matteri Gold (Finnland), Karl-Erik Johansson (Svíþjóð), Paul Lawless (Írland) og Sonny Ström (Svíþjóð)​.

Keppni ungra sýnenda er bæði laugardag og sunnudag. Á laugardag eru skráðir 28 ungir sýnendur og dæmir Francesca Cassin þá keppni, en og á sunnudag eru 23 skráðir og dæmir Hugo Quevedo þann dag. Keppnin fer fram í úrslita hringnum báða daga og hefst kl. 12.

Á laugardag verður einnig Rallý hlýðni keppni í úrslita hringnum og hefst hún kl. 10:30 svo áhugasamir um íþróttina eru hvattir til þess að kíkja.

Hér er hægt að sjá dagskrá sýningar, PM (dagskrá hringja) og dagskrá úrslita.
Úrslit, umsagnir og sýningaskrá má finna á hundavefur.is

​​VARÐANDI SÝNINGATJÖLD Á SVÆÐINU
Uppsetning sýningar fer fram á föstudeginum 7. júní. Ekki verður heimilt að tjalda á túninu fyrr en uppsetningu er lokið og leyfi hefur verið veitt, það er áætlað kl. 16. Ekki er heimilt að keyra inn á túnið á föstudeginum, né um helgina. Búið verður að spreyja merkingar á túnið þar sem tjöld mega vera, en það er ca. 4 metra frá hringjum. Reglulega verður merkt X en þar myndast gangvegar og ekki heimilt að tjalda á X svæði né fyrir aftan það, það er gert til að tryggja aðgengi að hringjum. Vinsamlegast athugið að tjöld við sýningarhringi mega ekki vera stærri en 3m x 3m. Stærri tjöldum má tjalda fjarri sýningarhringjum. Vinsamlegast ekki tjalda of nálægt göngustígunum, það þurfa stórir bílar að geta keyrt stíganna alla helgina, tjöld sem eru of nálægt gæti þurft að fjarlægja ef þau eru fyrir. ATH! Ef tjöld eru á stöðum sem þau mega ekki vera á munu skipuleggjendur sýningarinnar fjarlægja tjöldin, svo vinsamlegast virðið teikninguna hér að neðan og merkingar á túninu.

Hægt að smella hér til að sjá myndina hér að ofan á PDF lausn.

Vinsamlegast skoðið myndina hér fyrir ofan hvar má tjalda. Skipulag svæðisins og hringja má sjá hér að neðan. Bendum á að myndin er ekki í réttum hlutföllum, en hún sýnir grófa yfirsýn á svæðinu.

​Við minnum á að umgengni um svæðið þarf að vera til algjörrar fyrirmyndar og hvetjum við félagsmenn til að nýta sér ruslafötur á svæðinu.

Vinsamlega athugið að ​lausaganga hunda á svæðinu er stranglega bönnuð og skulu allir hundar vera í taumi og á eru þeir alfarið á ábyrgð eigenda sinna.

​Við minnum félagsmenn á þau ákvæði í reglugerð nr. 80/2016 er varðar velferð gæludýra þegar valdir eru sýningartaumar og ólar. Félagið hvetur félagsmenn til að nýta sér búnað sem er í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Bílastæðamál
Ekki verður hægt að leggja við kirkjuna (svæði C) á laugardag. En nóg er af bílasæðum á svæðinu. Vinsamlegast ekki leggja bílum ólöglega, þeir verða dregnir í burtu og/eða sektaðir. 

Sýningastjórar eru Ágústa Pétursdóttir og Anna Guðjónsdóttir.

Við hlökkum til að sjá ykkur og gangi ykkur vel!