Haustsýning um helgina!

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 2 min

Þá er komið að haustsýningunni okkar, en um helgina verður alþjóðlegsýning haldin í reiðhöll Spretts í Kópavogi. Skráðir á sýninguna eru 1080 hundar ásamt 34 ungum sýnendum. Dæmt verður í 7 sýningahringjum samtímis og hefjast allir dómhringir  kl. 9:00 báða daga og áætlað að úrslit hefjist kl. 14:45 báða daga. Gera má ráð fyrir að þau standi til u.þ.b. kl. 17.

FRÍTT er inn á sýninguna í boði ACANA og er því engin miðasala á staðnum, rósettusalan verður á sínum stað að venju meðan sýningunni stendur. Vekjum athygli að ekki er tekið við seðlum í rósettusölunni, einungis kortum. 

 

Dómarar helgarinnar verða: Aleksandar Petrovic (Serbía), Ágústa Pétursdóttir (Ísland), Maija Lehtonen (Finnland), Ramune Kazlauskaite (Litháen), Saija Juutilainen (Finnland), Tanya Ahlman-Stockmari (Finnland) og Tino Pehar (Króatía).

Keppni ungra sýnenda fer fram á sunnudag, en eins og áður sagði eru 34 ungmenni skráð. Dómari keppninnar er Ágústa Pétursdóttir og fer keppnin fram í hring 3 að loknum tegundadóm í hringnum.

Hér er hægt að sjá dagskrá sýningar, PM (dagskrá hringja) og dagskrá úrslita.
Úrslit, umsagnir og sýningaskrá má finna á hundavefur.is

​​​Við minnum á að umgengni um svæðið þarf að vera til algjörrar fyrirmyndar og hvetjum við félagsmenn til að taka upp rusl eftir sig og nýta sér ruslafötur á svæðinu, nóg er af þeim. 

Við minnum félagsmenn á þau ákvæði í reglugerð nr. 80/2016 er varðar velferð gæludýra þegar valdir eru sýningartaumar og ólar. Félagið hvetur félagsmenn til að nýta sér búnað sem er í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. 

Nokkrir punktar sem fara skal yfir fyrir helgina:

  • Vinsamlegast keyrum hægt í hesthúsahverfinu - mikið var um of hraðan akstur á svæðinu á öðrum sýningum félagsins
  • STANGLEGA BANNAÐ er að vera með hunda á reiðstígum ásamt því að leggja á reiðstígum eða við hesthúsin í hverfinu, þetta á einnig við um reiðstíginn sem liggur með fram langhlið hallarinnar að norðan verðu, næg bílastæði eru við höllina og nóg pláss til að viðra hundana, ásamt pissusvæði innan dyra við inngang. Sjá mynd af bílastæðum hér að neðan
  • Hundar eru ekki velkomnir upp í stúku eða í veislusal þar sem veitingasala er.
  • Hundur á sýningasvæði skal vera í stuttum taumi og tryggt að hundur sé ávallt undir stjórn ábyrgðaraðila hans. Hundar mega ekki vera í útdraganlegum taumi (eins og t.d. flexi taumi).
  • Þeir sýnendur sem eru með SNYRTIBORÐ með sér þurfa að vera með undirbreiðslu undir borðið. Til dæmis má nota teppi, handklæði eða plastundirbreiðslu.
  • Hirða þarf upp eftir hundinn INNI OG ÚTI og þrífa með þess tilgerðum áhöldum. Pokar, sótthreinsisprey og pappír er sem fyrr að finna m.a. á borðum við hringi. Við hvetjum fólk til þess að tryggja það að ræsta hundana ÁÐUR en komið er inn í höll og benda öðrum þátttakendum á að hirða upp eftir sína hunda fari það fram hjá þeim.
  • Haldið svæðinu í kringum ykkur hreinu.​ Með samstilltu átaki getum við sýnt og sannað að við getum verið til fyrirmyndar þegar kemur að umgengni en vitað er að það er ein helsta gagnrýni á hundahald. Okkur langar ekkert að vera úti í kulda og frosti á haust og vetrarsýningu.
  • Veitingasala verður á staðnum í veislusalnum frá kl. 9-16 ásamt því að rósettusalan verður á sínum stað við inngang í höllina. Vekjum athygli að ekki verður tekið við seðlum í rósettusölunni, einungis kortum.

Sýningastjórar eru Ágústa Pétursdóttir og Anna Guðjónsdóttir.

Við hlökkum til að sjá ykkur og gangi ykkur vel!

Grænt: Venjuleg bílastæði

Gult: Bannað að leggja fyrir framan rúllur eða loka aðgengi að þeim

Rautt: STRANGLEGA BANNAÐ að leggja, um er að ræða reiðstíga!

Bílar sem eru lagðir þannig að þeir loki aðgengi eða reiðstígum verða dregnir í burtu á kostnað eiganda.