Hreyfing á innflutningsmálum

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 1 min

Atvinnuvegaráðuneytið hefur upplýst félagið um að verið sé að vinna að breytingum á reglugerðum 200/2020 (um innflutning hunda og katta) og 201/2020 (um einangrun og einangrunarstöðvar).

Í maí s.l. áttu fulltrúar félagsins fund með ráðuneytinu og MAST þar sem rætt var það ófremdarástand sem skapast hefur í innflutningsmálum gæludýra, bæði með ákvörðun Icelandair að hætta að flytja gæludýr í farangursrými og með reglugerðarbanni á flutningi þeirra í farþegarými. Innflutningur er í dag bæði flókinn og kostnaðarsamur vegna skorts á flutningsleiðum, auk þeirra neikvæðu áhrifa sem ástandið hefur haft á rekstrargrundvöll einangrunarstöðva.

Á fundinum lagði félagið áherslu á brýna nauðsyn á auknu svigrúmi við innflutning, þar á meðal með endurskoðun á banni við flutningi í farþegarými á minni dýrum, líkt og áður var leyft.

Fundurinn var jákvæður og það var mat fulltrúa félagsins að vilji væri hjá stjórnvöldum að finna lausnir sem kæmu til móts við þarfir innflytjendur gæludýra.

Nýverið fékk félagið þær fréttir að vinnuhópur innan ráðuneytisins hefði lagt fyrir ráðherra, Hönnu Kötu Friðriksson, breytingatillögur á reglugerðum um innflutning og einangrun gæludýra sem unnar voru í samráði við Matvælastofnun. Vænst er til þess að drögin birtist í samáðsgátt á næstu dögum. Ekki fengust frekari upplýsingar um efni tillagnanna, en félagið bindur vonir til þess að þar verði opnað aftur á flutning gæludýra í farþegarými með breyttu verklagi á flugvellinum, líkt og rætt var um á fundinum.