Fundur HRFÍ með MAST
|
|
Time to read 1 min
|
|
Time to read 1 min
HRFÍ hefur fundað með fulltrúum MAST (Matvælastofnunar Íslands) til að ræða stöðu innflutningsmála gæludýra til landsins. Á fundinum kom félagið á framfæri þungum áhyggjum félagsmanna, ekki síst yfir erfiðleikum við að finna flutningsleiðir til Íslands á þeim fáu innkomudögum sem einangrunarstöðvarnar eru opnar. Þá hefur stjórn félagsins áhyggjur af mögulegum afleiðingum þessa á rekstrargrundvöll einangrunarstöðvanna og að landið geti hreinlega lokast fyrir innflutningi gæludýra, að óbreyttu.
Á fundinum með MAST voru m.a. ræddar mögulegar leiðir til að auðvelda innflytjendum að nýta betur þau flutningspláss sem til boða standa í dag. Félagið óskaði eftir endurskoðun á banni við flutningi gæludýra í farþegarými flugvéla, en náist það í gegn, myndi það auðvelda verulega innkomu minni gæludýra, bæði hunda og katta. Mast hefur leitast við að leiðrétta þann misskilning nokkurra erlenda flugfélaga að alfarið sé bannað að flytja gæludýr til landsins og mun HRFÍ ítreka þau skilaboð til flugfélaganna og hvetja þau sem hafa tilskilinn búnað í vélum, að opna fyrir flutning þeirra.
MAST hefur undanfarnar vikur unnið að reglugerðarbreytingu sem heimilar dýralæknaskoðun á einangrunarstöð í stað flugvallar eftir komu til landsins. Erna Sigríður Ómarsdóttir, formaður félagsins, segir félagið fagna þessari breytingu, enda þýði hún að vélar sem flytja gæludýr geta lent hvenær sem er sólarhrings á innkomudögum. Þá dregur hún úr þeim tíma sem dýrin þurfa mögulega að vera ein á flugvellinum. Breytingin er nú til umfjöllunar hjá Matvælaráðuneytinu og vonast félagið til að hún verði samþykkt á næstu dögum.
Erna segist ánægð með fundinn með MAST og kvaðst hafa fundið skilning á sjónarmiðum gæludýraeigenda. Félagið mun halda vinnu sinni áfram við að leita leiða til að auka sveigjanleika í flutningum gæludýra til Íslands í samvinnu við MAST, einangrunnarstöðvar og flutningsaðila.