Breytingar á reglum um skráningu í ættbók - BOAS öndunarfærapróf og annað

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 2 min

Stjórn hefur samþykkt nokkrar breytingar á 10. kafla reglna um skráningu í ættbók. Tvær breytingar taka gildi nú þegar, aðrar breytingar taka gildi þann 1. janúar 2025.

Breytingarnar sem taka gildi nú þegar varða breytingu á lágmarksaldri Rottweiler og Dobermann fyrir mjaðma- og olnbogamyndatöku, sem er færður úr 18 mánuðum í 12 mánuði.

Þá er í grein 10.4, almennu ákvæði um augnskoðanir, bætt inn að einungis sé tekið við ECVO og ACVO augnvottorðum.

Breytingar sem taka gildi 1. janúar 2025 varða BOAS öndunarfærapróf, en þrjú hundakyn þurfa framvegis að standast slíkt próf til að uppfylla skilyrði ræktunar. Þetta eru hundakynin English bulldog, French bulldog og Pug. 

Einnig var ákveðið að halda inni augnskoðunarkröfu á Shih tzu.

Hægt er að nálgast reglugerðina undir Lög og reglur, eða hér.

Kröfur um BOAS öndunarfærapróf fyrir English bulldog, French bulldog og Pug fyrir ræktun

Þann 27. apríl sl. var hélt félagið, í samstarfi við félag dýralækna, BOAS matsdag.  Dagurinn var nýttur sem hópskoðun fyrir English bulldog, French bulldog og Pug, en einnig sem þjálfun fyrir dýralækna í framkvæmd skoðunar, sem nauðsynleg er til að hljóta  viðurkenningu HRFÍ sem framkvæmdaraðilar fyrir prófið. Alls eru nú 22 dýralæknar með viðurkenningu HRFÍ til að framkvæma BOAS mat.

Frá og með 1. janúar 2025 taka gildi reglur sem gera kröfu um að ræktunardýr af þessum þremur hundakynjum verði með gilt BOAS mat fyrir pörun. Samkvæmt þeim verða dýr sem greinast með gráðun 3 sett í ræktunarbann og fást hvolpar undan þeim ekki ættbókarfærðir. Pörun á dýrum með gráðun 2 verður leyfð að sinni, svo framarlega sem þau eru pöruð við dýr með gráðun 0 eða 1. Það verður þó endurskoðað eftir 12-14 mánuði þegar frekari gögn liggja fyrir og gæti svo farið að gráðun 2 verði einnig útilokuð úr ræktun líkt og gert er í nágrannalöndum okkar. Í dag eru um 35 dýr með gild vottorð.

Við hvetjum félagsmenn til að fara með dýrin sín í skoðun, en frekari upplýsingar um BOAS og lista yfir dýralækna með viðurkenningu til að framkvæma prófið má finna hér.

Ný grein í 10. kafla reglna um skráningu í ættbók mun hljóða svo og tekur hún gildi 1. janúar 2025:

Þar sem krafa er gerð um BOAS öndunarfærapróf, gildir, nema annað sé tekið fram, að vottorð skal gefið út af dýralækni sem viðurkenndur er af HRFÍ til að framkvæma slíkt próf. Niðurstaða skal kunn fyrir pörun og skal notast við eyðublað frá HRFÍ við útgáfu vottorðsins. Lágmarksaldur hunda í prófið er 12 mánaða. Vottorðið skal ekki vera eldra en 24 mánaða við pörun. Um öll hundakyn gildir að greinist hundur með BOAS gráðun 3 fást hvolpar undan honum ekki ættbókarfærðir. Hundur með BOAS gráðun 2 má aðeins para með hundi með gráðun 0 eða 1. Hvolpar undan foreldrum sem eru báðir greindir með gráðun 2 fást ekki ættbókarfærðir.

Uppfærðar reglur í heild sinni má finna hér.