BOAS gráðun - Mat á virkni öndunarfæra - Skráning í hópskoðun

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 2 min

Laugardaginn 27. apríl verður fyrsta BOAS (brachycephalic obstructive airway syndrome) matið framkvæmt á Íslandi í húsnæði HRFÍ að Melabraut og bjóðum við öllum þeim félagsmönnum sem eiga hunda af tegundunum Pug, Frönskum bolabít og Enskum bolabít að skrá hunda sína í matið. Lágmarksaldur hunda er 12 mánaða til að geta tekið þátt í skoðuninni. Verð er einungis kr. 1500 á hund.

BOAS matið er samstarfsverkefni HRFÍ og dýralækna og verður erlendur kennari/matsmaður dýralæknunum innan handar. Einungis er pláss fyrir takmarkaðann fjölda hunda og hvetjum við ræktendur til að skrá sem fyrst og mæta í þá tíma sem þeir eru skráðir í.

Matið er gilt sem ræktunarmat og verður skráð í gagnagrunn félagsins, en í framtíðinni verður ræktendum þessara tegunda gert skylt að BOAS skoða ræktunardýr og verður slíkt mat almennt framkvæmt á viðurkenndum dýralæknastofum. 

Skráning í matið fer fram í gegnum vefverslun HRFÍ - HÉR

 

Hvað er BOAS?

BOAS mat var upprunanlega þróað af The Royal Kennel Club og háskólanum í Cambridge í Englandi og hefur verið nota til að meta heilbrigði öndunarfæra hjá stuttnefja hundategundum, aðallega Pug, Frönskum Bolabít og Enskum bolabít.  Matið er hugsað fyrir ræktendur til að geta með auðveldari hætti valið þau ræktunardýr sem þeir nota með tilliti til aukins heilbrigðis í tegundunum.  Matið er framkvæmt af dýralæknum sem hafa fengið sérstaka þjálfun í að meta heilbrigði öndunarfæra tegundanna. 

Hægt er að meta alla hunda af þessum tegundum frá 12 mánaða aldri og ætti að meta þá á 2. ára fresti meðan þeir eru í ræktun.

Hundategundir með stutt trýni og breiðan haus eru kölluð „brachycephalic“ kyn (brachy þýðir stutt og cephalic vísar til höfuðs).  Í sumum hundum af þessum hundakynjum getur verið ofvöxtur í mjúkgómnum í trýni/hálsi hundsins sem getur valdið erfiðleikum við öndun, þetta veldur því að hundurinn hrýtur og heyrist í honum hrothljóð þegar hann hleypur eða hreyfir sig.  Þetta er ástand sem getur ágerst með auknum aldri og valdið því að hundurinn þurfi aðgerð til að laga mjúkgóminn. 

Til að koma í veg fyrir að þetta heilkenni sé ræktað fram, mun HRFÍ í framtíðinni fara fram á að allir hundar af tegundunum Pug, Franskur bolabítur og Enskur bolabítur séu metnir áður en þeir eru notaðir í ræktun.  Ekki er komin dagsetning á slíka heilbrigðiskröfu og verður hún auglýst síðar.

Hvernig fer matið fram?

Eins og áður sagði eru það dýralæknar sem hafa fengið sérstaka þjálfun í mati á heilbrigði öndunarfæra sem sjá um matið. Dýralæknirinn mun hlusta hundinn með hlustunarpípu meðan hann er rólegur og í hvíld.  Síðan er hundurinn hvattur til að hreyfa sig rösklega í um 3 mínutur (hlaupa, ganga hratt) og dýralæknirinn hlustar hann aftur. Dýralæknirinn metur hann síðan eftir nákvæmum kvarða og gefur gráðu.

Frekari upplýsingar um BOAS og BOAS mat (á ensku) má finna á eftirfarandi slóðum:
Grein hjá FCI
Cambridge - Um BOAS