Aðalfundur 29. apríl og Guðrúnarverðlaunahafar

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 1 min

Aðalfundur HRFÍ 29. apríl

Aðalfundur Hundaræktarfélags Íslands var haldinn í gær, þann 29. apríl, í húsnæði félagsins að Melabraut 17. Góð mæting var á fundinn.

Ársskýrsla stjórnar og ársreikningar voru kynnt og samþykkt án athugasemda. Þá var starfs-og fjárhagsáætlun stjórnar samþykkt fyrir næsta starfsár.

Fundarstjóri kynnti niðurstöður rafrænna kosninga til stjórnarkjörs. Hlaut Erna Sigríður Ómarsdóttir kosningu í sæti formanns næstu tvö árin, Anna María Gunnarsdóttir og Klara Símonardóttir í aðalstjórn félagsins til tveggja ára og María Björg Tamimi var kjörin varamaður til tveggja ára. Auk þessara aðila sitja í stjórn árið 2024-2025 þær Anna Þórunn Björnsdóttir og Elín Edda Alexandersdóttir.

Lagðar voru fram lagabreytingar af stjórn sem allar voru samþykktar með einni breytingartillögu þess efnis að halda inni á dagskrá aðalfundar starfs- og fjárhagsáætlun stjórnar. Þá var breytingartillögu er varðar upptöku sektarákvæðis samhliða áminningu vegna brots félagsmanna, vísað til framhaldsaðalfundar er stjórn var falið að boða þann 29. ágúst n.k. og til umfjöllunar laganefndar í millitíðinni.

Hinrik Gunnarsson hjá Advant endurskoðun var kjörinn endurskoðandi félagsins.

Í samræmi við nýsamþykkt ákvæði voru þrír fulltrúar kjörnir í siðanefnd ásamt varamönnum fyrir hvern þeirra. Anna Guðjónsdóttir hlaut kosningu til 3gja ára og Ingibjörg Austmann varamaður hennar. Ásta María Karlsdóttir var kjörin til 2gja ára og Simon Cramer varamaður hennar, og Stefanía Björgvinsdóttir í 1 ár og hennar varamaður Þorbjörg Ásta Leifsdóttir.

Undir önnur mál hafði borist eitt mál um að Chihuahuadeild yrði lögð niður í núverandi mynd og starfsemi hennar rynni inn í Smáhundadeild frá og með 1. ágúst n.k. Var tillagan samþykkt af fundinum.

Þá afhenti formaður félagsins Guðrúnarverðlaunin í fyrsta sinn. Verðlaunin hlutu þær Auður Valgeirsdóttir a.v. og María Tómasdóttir h.v. fyrir áratuga starf þeirra að ræktun og uppbyggingu Tibetan Spaniel og Cavalier King Charles Spaniel hundakynjanna hér á landi, Auður undir merkjum Tíbráar Tinda og María Ljúflingsræktunar. Var þeim báðum færður fallegur minningagripur og blómvöndur við standandi lófatak fundargesta sem samgladdist þessum heiðurskonum félagsins. Frekari umfjöllun um þær Auði og Maríu verður birt í Sámi fljótlega.

Að lokum þakkaði formaður félagsins fundarstjóra og fundarmönnum fyrir góðan fund.