Aðalfundur 18. apríl og nýr heiðursfélagi

Written by: Hundaræktarfélag Íslands

|

|

Time to read 1 min

Aðalfundur HRFÍ 18. apríl

Aðalfundur Hundaræktarfélags Íslands var haldinn í gær, þann 18. apríl, í húsnæði félagsins að Melabraut 17.

Góð mæting var á fundinn. Ársskýrsla stjórnar og ársreikningar voru kynnt og samþykkt án athugasemda. Skýrsla um starfsemi siðanefndar var lesin upp og þá var starfs-og fjárhagsáætlun stjórnar samþykkt fyrir næsta starfsár.

Fundarstjóri kynnti niðurstöður rafrænna kosninga til stjórnarkjörs. 225 greiddu atkvæði. Anna Þórunn Björnsdóttir og Sunna Birna Helgadóttir fengu kosningu í aðalstjórn félagsins. Elín Edda Alexandersdóttir fékk kosningu sem varamaður til tveggja ára og Klara Símonardóttir sem varamaður til eins árs. Úr stjórn ganga Anna Guðjónsdóttir og Guðbjörg Guðmundsdóttir, og færum við þeim bestu þakkir fyrir ómetanleg störf sín í stjórn félagsins síðast liðin ár. Stjórn árið 2024-2025 skipa því Erna Sigríður Ómarsdóttir, formaður, Anna María Gunnarsdóttir, Anna Þórunn Björnsdóttir, Erla Heiðrún Benediktsdóttir og Sunna Birna Helgadóttir. Varamenn eru Elín Edda Alexandersdóttir og Klara Símonardóttir.

Kosningu í sæti tveggja félagskjörinna skoðunarmanna hlutu Maríanna Gunnarsdóttir og Þorsteinn Þorbergsson, og tveggja til vara, Guðlaug Jóna Matthíasdóttir og Pétur Alan Guðmundsson.

Kosningu í siðanefnd hlutu Daníel Örn Hinriksson, Guðbjörg Guðmundsdóttir og Maríanna Gunnarsdóttir í sæti aðalmanna og til varamanna þær Brynja Kristín Magnúsdóttir og Guðrún Margrét Baldursdóttir.

Tillögur um lagabreytingar sem stjórn hafði áður lagt fram, voru dregnar til baka á fundinum.

Undir önnur mál bárust tillögur um breytingar á grundvallarreglum félagsmanna sem vísað var til stjórnar félagsins til skoðunar. Þá var rætt um stigakerfi fyrir ræktendur líkt og notað er í DKK og því einnig beint til stjórnar að skoða hvort svipað fyrirkomulag gæti væri gagnlegt HRFÍ.

Að lokum þakkaði formaður félagsins fundarstjóra og fundarmönnum fyrir góðan fund.

 

Nýr heiðursfélagi

Guðbjörg Guðmundsdóttir var sæmd gullmerki félagsins vegna framlags hennar og vinnu í þágu félagsins og málefna þess síðustu 20 árin. Guðbjörg hefur komið víða að í félaginu, setið í stjórnum deilda og unnið í hinum ýmsu nefndum. Árið 2016 var Guðbjörg kjörin varamaður í stjórn félagsins og tók virkan þátt sem slíkur í fjögur ár, þá tók hún sæti í aðalstjórn í fjögur ár, og þar af var hún varaformaður félagsins í tvö ár. Á þessum tíma hefur margt áunnist í málefnum hundafólks og félagsins og hefur Guðbjörg sannarlega lagt sitt á vogarskálarnar og hefur alltaf verið reiðubúin að gefa af tíma sínum og þekkingu.

Stjórn HRFÍ þakkar Guðbjörgu kærlega fyrir sitt starf í gegnum árin í þágu félagsins og er óhætt að segja að hún sé vel að heiðrinum komin.